• Kjarnyrt
  • Posts
  • Fyrir hverja er „þetta allt að koma“?

Fyrir hverja er „þetta allt að koma“?

Á meðan að ríkisstjórnin bíður og vonar það besta – vonar að þetta sé allt að koma – þá hækkar vaxtabyrði sífellt fleiri heimila, vanskil færast verulega í aukana og færri peningar eru til staðar í veskinu til að borga fyrir daglegar nauðsynjar.

Fyrir þremur árum síðan skall loforðaflaumur á íslenskum heimilum um að ef þau myndu kjósa á ákveðinn hátt þá myndu vextir verða lágir hérlendis til frambúðar. Afborganir yrðu lægri. Kaupmáttur meiri. Núverandi forsætisráðherra skrifaði: „Fólk fær meira fyrir launin sín, skattarnir hafa lækkað og verðbólgan verið hófleg.“ Það væri „auðveldara að láta mánaðamótin ganga upp“ og þetta gæti „allt breyst hratt ef ný ríkisstjórn setur verðbólguna af stað aftur.“

Miðað við yfirlýsingarnar mátti ætla að þetta væri bara komið. Ísland væri orðið að einhverskonar útópíu þar sem smjör drýpur af hverju strái. 

Svo fór að halla undan fæti. Ljóst mátti vera að það yrðu miklar efnahagslegar afleiðingar af því að ríkisstjórnin pumpaði gríðarlegu magni af ódýrum peningum nokkuð skipulega, en verulega ójafnt, til heimila og fyrirtækja landsins á kórónufaraldurstímum, og drógu svo allt of lengi að slökkva á pumpunni. Ný ríkisstjórn, sem var sú sama og áður, setti verðbólguna nánast strax og alfarið sjálf af stað aftur þegar hún var búin að endurnýja aðgangskortin að stjórnarráðinu.

Sársaukafull meðferð

Síðan þá hefur verðbólgan, sem hefur ekki verið í markmiði Seðlabankans í meira en fimm ár, farið úr því að vera 4,4 prósent, í að toppa í 10,2 prósentum í fyrra og stendur eins og er í sex prósentum. Stýrivextir, sem voru 1,25 prósent síðast þegar kosið var, hafa nú verið 9,25 prósent í þrettán mánuði. 

Fyrir vikið hefur Seðlabanki Íslands þurft að ráðast í afar stórkarlalegar aðgerðir til að slá á þensluna. Kæla hagkerfið. Fá heimili og fyrirtæki til að eyða minna. Segja fullorðnu fólki að búa áfram heima hjá foreldrum sínum og biðla til veðurbarðar þjóðar að hætta að fara til Tenerife.

Það hefur gengið hægar en vonir stóðu til að ná tilætluðum árangri. Mun hægar. Fyrir vikið hefur meðferðin við verðbólgunni orðið miklu sársaukafyllri en lofað var og bitnað afar mismunandi á hópum innan samfélagsins. Sumir geta vel ráðið við svimandi háa vexti og mikla verðbólgu yfir lengri tíma án þess að það bitni sem neinu nemur á einkaneyslunni eða lífsstílnum. Það á til að mynda við þá hópa sem skulda ekki, hafa mjög há laun eða eiga fjármagn til að hafa umtalsverðar tekjur af. 

Það lendir alltaf á herðum þeirra sem síst ráða við það að hemja verðbólguna. Láglaunafólki, leigjendum og skuldsettum barnafjölskyldum. Þau sitja uppi með stórlækkaðan kaupmátt ráðstöfunartekna sem gerir allar lífsnauðsynjar miklu dýrari og margfaldan vaxtakostnað. 

Eru allir að gera sitt?

Það er sam­vinnu­verk­efni Seðla­banka, rík­is­stjórnar og vinnu­mark­aðar að stuðla að efna­hags­legum stöð­ug­leika. Að vinna á þessu ástandi. Það þýðir að þessar þrjár ein­ingar þurfa allar að leggja sitt að mörkum til að við­halda kaup­mætti, stuðla að nægri atvinnu og halda niðri verð­bólgu.

Seðla­bank­inn gerir það með þeim tólum sem hann hef­ur, sér­stak­lega stýri­vöxtum sem ákvarða hversu dýrt lánsfé er á hverjum tíma. Vaxta­lækk­anir eða -hækk­anir hans hafa síðan áhrif á til dæmis tekju- og eigna­skipt­ingu og þar á ríkið að grípa inn í til að skakka leik­inn, ef til­efni er til. Það getur gert slíkt með því að skatt­leggja þá sem urðu heppnir og högn­uð­ust vegna aðgerða Seðla­bank­ans og með því að nýta milli­færslu­kerfi til að koma fjár­munum til hópa sem urðu verst úti vegna sömu aðgerða. 

Hlut­verk vinnu­mark­að­ar­ins er að semja þannig að það sé til inni­stæða fyrir launa­hækk­un­um. Hærri laun leiða af sér verð­bólgu enda eykst kostn­aður fyr­ir­tækja við launa­hækk­anir starfs­fólk og þeim kostn­aði er velt út í verð­lag­ið. 

Það verður ekki tekið af Seðlabankanum að hann hefur gert sitt í að kæla hagkerfið með því að hækka vexti. Þeir eru hvergi hærri í Evrópu ef frá eru talin Tyrkland, þar sem þeir eru 50 prósent, og þrjú lönd við stríðssvæði: Rússland (19 prósent), Úkraínu (13 prósent) og Belarús (9,5 prósent). Vinnumarkaðurinn gerði kjarasamninga til langs tíma sem innihéldu hóflegar launahækkanir og lagði með því sitt að mörkum. Þá stendur eftir hvort að ríkið sé að gera sitt. Um það er deilt.

Þið eruð að misskilja, þetta er allt að koma

Gagnrýni á stjórnvöld er aðallega tvíþætt. Í fyrsta lagi hvort þau hafi gert nægilega vel í ríkisfjármálum til að skapa aðstæður til að lækka verðbólgu og vexti og í öðru lagi hvort þau hafi gert nóg til að færa fjármuni frá þeim sem hagnast á yfirstandandi aðstæðum til þeirra sem verða mest fyrir barðinu á þeim.

Ríkisstjórnin heldur því staðfastlega fram að allt sé á réttri leið. Þegar Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti fjárlagafrumvarp næsta árs nýverið var yfirskriftin „Þetta er allt að koma“. Verið sé að fara millileið með því að hlífa heimilum við atvinnuleysi og fyrirtækjum við samdrætti, og þess vegna sé ríkið rekið með halla.

Fjármála- og efnahagsráðherra segir þjóðinni að þetta sé allt að koma. Mynd: Stjórnarráðið

Þá hafi verið samið um það í tengslum við kjarasamninga að „styðja sérstaklega við barnafólk, leigjendur og skuldsetta íbúðareigendur“ með því að greiða til þeirra einskiptis vaxtastuðning, hækka húsnæðisbætur og eignaskerðingarmörk og efla stuðning við barnafjölskyldur með því að gera mat í grunnskólum gjaldfrjálsan fyrir alla. Þá séu skuldahlutföll að batna hratt og ná því sem þau voru fyrir kórónuveirufaraldurinn. 

Öryrkjar borga fyrir kjarasamninga

Gagnrýnendur benda á að ríkissjóður sé rekinn í 41 milljarðs króna halla, sem er töluvert meiri halli en boðaður var í vor, og að til standi að hann verði ekki rekin með afgangi í níu ár í röð samkvæmt áætlunum. Þeir benda á að vaxtakostnaður ríkissjóðs á næsta ári sé áætlaður 117 milljarðar króna, sem er einn sá hæsti í Evrópu. 

Þeir benda, með réttu, á að 80 milljarða króna aðgerðir til að styðja við Grindvíkinga séu ekki fjármagnaðar með nýjum tekjum og að peningar hafi verið búnir til fyrir kjarasamningsaðgerðirnar með því að láta öryrkja borga fyrir þær að mestu. Það var gert með því að fresta upptöku nýs örorkulífeyriskerfis sem átti að taka gildi um næstu áramót en á nú að taka gildi 1. september 2025. Við það „sparast“ tíu milljarðar króna. 

Lítið er að gerast á tekjuhlið ríkisfjármála og flestar þeirra skattabreytinga sem eru taldar til snúa að málum sem lítil eða engin sátt er um milli sitjandi ríkisstjórnarflokka. Þar má nefna hækkuð veiðigjöld, aukin gjaldtaka vegna fiskeldis, breyttar reglur um reiknað endurgjald og breytingar á gjaldtöku á ferðaþjónustu. Allt eru þetta ólögfestar skattabreytingar.

Lítið er að gerast á tekjuhlið ríkisfjármála og flestar þeirra skattbreytinga sem eru taldar til snúa að málum sem lítil eða engin sátt er um milli sitjandi ríkisstjórnarflokka.

Með öðrum orðum þá er ríkisstjórnin að bregðast með því að aðlaga ekki ríkisfjármálin að aðstæðum og bregðast fullkomlega með því að horfa bara að mestu aðgerðarlaus á sigurvegara verðbólgunnar hlæja afskiptalausa alla leiðina í bankann á meðan byrðum er í sífellu bætt á þá sem eru að tapa. 

Ofurskattur á ungar barnafjölskyldur

Á meðan að ríkisstjórnin bíður og vonar það besta þá hækkar vaxtabyrði sífellt fleiri heimila, vanskil annarra skulda en vegna húsnæðis eru að færast verulega í aukana og færri peningar eru til staðar í veskinu hjá mörgum fjölskyldum til að borga fyrir daglegar nauðsynjar. 

Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar má líka sjá að byrðarnar lenda afar mismunandi á kynslóðum. Þar er birt mynd sem sýnir að hlutfall þess hóps sem greiðir yfir 20 prósent af ráðstöfunartekjum sínum – það sem situr eftir á bankareikningnum þegar skattar og önnur opinber gjöld hafa verið greidd – í vexti hefur farið úr ellefu prósent árið 2019 í 14 prósent í lok árs í fyrra. Þegar fólk undir 40 ára er skoðað einvörðungu þá birtist hins vegar allt önnur mynd. Hlutfall þess hóps sem borgar meira en fimmtung af því sem hann á eftir um hver mánaðamót þegar ríki og sveitarfélög hafa tekið sitt í vexti hefur farið úr 13 í 21 prósent. 

Úr fjárlagafrumvarpi ársins 2025.

Enginn þarf að velkjast í vafa um að þetta hlutfall hefur hækkað hratt það sem af er þessu ári, og að staðan hjá ungu barnafólki á enn eftir að hríðversna. Frá miðju þessu ári og út næsta ár munu óverðtryggð lán upp á 450 milljarða króna, sem eru með vegna fasta vexti á bilinu 4,57 til 5,90 prósent, losna. Þá þurfa viðkomandi annað hvort að fara í verðtryggða vexti í sex prósent verðbólgu – sem Arion banki og Íslandsbanki hafa nú hækkað gríðarlega til að halda uppi arðsemiskröfu sinni – eða taka ellefu prósent óverðtryggða vexti.

Þetta fólk á að bíða. Þetta er víst allt að koma.

60 þúsund heimili ná ekki endum saman

Fyrir hvern er þetta allt að koma? Nýjar tölur Hagstofu Íslands, sem birtar voru á þriðjudag, sýna að þetta kom ágætlega hjá þeim sem hafa umtalsverðar fjármagnstekjur. Slíkar voru alls 303 milljarðar króna í fyrra og hækkuðu um 61 milljarð króna milli ára, eða um 25 prósent. Af þessum fjármagnstekjum þénaði best settu tíu prósent heimila í landinu 70 prósent, eða 211, milljarða króna. Um þriðjungur af fjármagnstekjum er arður af hlutabréfum. Efsta tekjutíundin á 86 prósent allra slíkra í eigu heimila. 

Hún á líka næstum helming þess sem heimili landsins eiga inni á bankabók, en hin hliðin á hárri verðbólgu er að innlánsvextir rjúka upp. Í fyrra hækkuðu enda vaxtatekjur heimila um 82 prósent frá því sem var árið áður og skiluðu eigendum innstæðna 84 milljörðum króna. Þessi hópur er sigurvegari verðbólgunnar.

Tapararnir eru, líkt og áður sagði, skuldsettar barnafjölskyldur, leigjendur og láglaunafólk sem er í erfiðleikum með að eiga fyrir helstu lífsnauðsynjum og þaki yfir höfuðið. 

Í fyrra hækkuðu enda vaxtatekjur heimila um 82 prósent frá því sem var árið áður og skiluðu eigendur innstæðna 84 milljörðum króna. Þessi hópur er sigurvegari verðbólgunnar.

Allar mælingar sýna að hlutfall þeirra sem býr við íþyngjandi húsnæðiskostnað hefur rokið upp á síðustu árum. Nýleg könnun sem Prósent gerði sýnir að fjöldi heimila sem þurfa að ganga á sparifé sitt til að ná endunum saman hefur tvöfaldast frá árinu 2021. Fjöldi þeirra sem safnar skuldum um hver mánaðamót hefur líka tvöfaldast. Heimilum sem ná endum saman með naumindum, gengur á sparifé um mánaðamót eða safnar skuldum hefur fjölgað um 20 þúsund á þremur árum og eru nú um 60 þúsund, samkvæmt útreikningum í frétt Morgunblaðsins um könnunina. Það eru næstum 40 prósent allra heimila á Íslandi. 

Er ekki bara best að kjósa hæfara fólk?

Er ekki bara best að gangast við því að við erum á rangri leið? Að þetta ástand hafi staðið yfir allt of lengi með víðfeðmum afleiðingum á líf og velferð stórs hluta þjóðarinnar? Að það getur verið ráðandi þáttur í aukinni vanlíðan og drunga sem hvílir yfir íslenskri þjóð þegar geta fólks til þess að lifa af reisn og án þess að vera með afkomuáhyggjur er verulega skert yfir langt tímabil? Að meðferðin sjálf sem ríkisstjórnin valdi að beita við verðbólgusjúkdómnum sem hún ber sjálf ábyrgð á að hafa sýkt okkur af hefur valdið varanlegum skaða á aðstæðum fjölmargra heimila í landinu?

Er ekki bara best að grípa til aðgerða svo hægt sé að leysa þau vandamál sem tugþúsundir íslenskra heimila standa frammi fyrir, í stað þess að treysta fólki sem virðist fyrst og síðast vinna við að vona það besta fyrir verkefninu?

Þetta er nefnilega ekkert að koma. Og það breytist ekkert þótt ábúðarfullir menn í jakkafötum með miklu meira sjálfsálit en fylgi klifi aftur og aftur á því að fólk sem telja sig hafa það skítt viti bara ekki hvað það hefur það gott.