• Kjarnyrt
  • Posts
  • Þarf best setta fólk landsins yfir 20 milljarða króna í húsnæðisstuðning?

Þarf best setta fólk landsins yfir 20 milljarða króna í húsnæðisstuðning?

Heimild til skattfrjálsrar ráðstöfunar á séreignarsparnaði inn á höfuðstól húsnæðislána rennur út um áramót. Alls 34 prósent þeirra rúmlega 80 milljarða króna sem ríkið hefur gefið eftir af skatttekjum framtíðar vegna úrræðisins til þessa hefur farið til ríkustu tíu prósent landsmanna. Á sama tíma hefur 20 prósent upphæðarinnar farið til þeirra 70 prósent þjóðarinnar sem er með lægstu tekjurnar og mest íþyngjandi húsnæðiskostnað.

Nýlega birtist enn eitt deilumálið milli ríkisstjórnarflokkanna þriggja þegar nýr formaður fjárlaganefndar, Njáll Trausti Friðbertsson úr Sjálfstæðisflokki, opinberaði þá skoðun sína að það væri „gríðarlega mikilvægt“ að almennt úrræði til nýtingar á skattfrjálsum séreignarsparnaði til niðurgreiðslu húsnæðislána, sem á að falla úr gildi um næstu áramót, verði framlengt. Í fréttum Stöðvar 2 sagði Njáll að þetta hafi verið „málefni okkar Sjálfstæðismanna í kosningunum 2013 og mikil áhersla á að þetta haldi áfram.“ Í grein sem hann skrifaði í Morgunblaðið á miðvikudag, sem bar fyrirsögnina „Séreignarsparnaðarleið Sjálfstæðisflokksins“, skrifaði hann í niðurlagi að það væri „ekki sniðugt að hætta því sem virkar vel fyrir íslenskt samfélag og styrkir enn frekar fjárhagslegt sjálfstæði borgaranna.“

Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra úr Framsóknarflokknum, hefur hins vegar ítrekað bent á að um væri að ræða úrræði sem hefur verið að gagnast fólki sem á mjög miklar eignir og er sterkefnað, og hefur verið að nýta úrræðið í áratug með myndarlegum ríkisstyrk til að greiða niður húsnæðislánin sín. Húsnæðisstuðningur sem verið sé að veita í gegnum fyrirkomulagið sé „gríðarlegur“ og að hóparnir sem njóti hans séu ekki þeir hópar sem þurfi mest á húsnæðisstuðningi að halda á Íslandi í dag. Vegna þess að úrræðið sé, eðlilega, mjög vinsælt hjá þeim sem njóta þess hafi þó verið „erfitt að hætta þessu.“

Hér er alltaf verið að leiðrétta

En spólum aðeins til baka og útskýrum hvað þetta fyrirbæri er eiginlega. Séreignarsparnaðarúrræðið var kynnt til leiks sem hluti af Leiðréttingunni svokölluðu sumarið 2014. Hún snerist annars vegar um að greiða miskabætur úr ríkissjóði til þeirra sem voru með verðtryggð lán á ákveðnu árabili og hins vegar um þetta úrræði. 

Nokkrum árum seinna var bætt við úrræðinu „Fyrsta fasteign“ sem virkar að uppistöðu eins en er ætlað fyrstu kaupendum einvörðungu. Sá stuðningur sem úrræðið veitir þeim sem það geta nýtt felst í því að ríkið rukkar engan skatt af nýtingu séreignarsparnaðar sé hann notaður til að greiða niður höfuðstól lána á sama tíma og fullur tekjuskattur er rukkaður sé séreignarsparnaður tekinn út í kringum enda starfsævinnar. Sá hluti kerfisins sem á að falla niður um komandi áramót er einungis almenni hlutinn. „Fyrsta fasteign“ verður áfram í boði fyrir þá sem eru … að kaupa sér fyrstu fasteign. 

Almenna úrræðið, sem við skulum bara kalla 2014-úrræðið til aðgreiningar frá „Fyrstu fasteign“, átti upphaflega einungis að gilda fram á mitt ár 2017. Það hefur hins vegar verið framlengt aftur og aftur og aftur. Síðast var það gert í fyrra en þá með sólarlagsákvæði, sem þýðir að þá fellur það sjálfkrafa niður í lok þess árs.

Gefa eftir skatttekjur framtíðar

Skattfrjáls nýting á séreignarsparnaði til að greiða niður höfuðstól húsnæðislána er því óþjált heiti yfir risastóra aðgerð sem hefur orðið að miðpunkti húsnæðisstuðningskerfis þeirra ríkisstjórna sem setið hafa að völdum síðastliðinn áratug.

Það sem gerir þetta að mjög vinsælli leið er annars vegar það að með henni eru stjórnvöld að gefa eftir skatttekjur sem eiga að innheimtast eftir áratugi, við útgreiðslu séreignarsparnaðar, og færa þær í vasa þeirra sem geta kosið þau í dag. Því þurfa stjórnmálamennirnir ekki að bera ábyrgð á því að afla neinna tekna, eða færa neitt til, svo stuðningskerfið geti lifað. Það er verið að nota skatta sem hefðu annars nýst til að bæta samfélag barna og barnabarna okkar til þess að lækka höfuðstól húsnæðislána hluta þeirra sem eru á eignarmarkaði í dag.

Þetta eru engar smá upphæðir sem um er að ræða. Hjón og þeir einstaklingar sem uppfylla skilyrði til samsköttunar geta samanlagt nýtt allt að 750 þúsund krónur af greiddu viðbótariðgjaldi hvers árs til að ráðstafa inn á höfuðstól lána sinna. Fyrir hjón eða sambúðarfólk sem hefur fullnýtt heimildina allan þann tíma sem hún hefur verið í gildi þá hefur það getað greitt niður höfuðstól lána sinna fyrir um 7,5 milljónir króna á einum áratug. Af þeirri upphæð hefur tæpur fjórðungur komið úr ríkissjóði. Það munar um það. Skuldir hópsins hafa lækkað sem hefur leitt til lægri afborgana af lánum. Því minna sem þú skuldar, því minna borgar þú af lánum. 

Yfir 200 milljarðar króna

Frá því að opnað var fyrir þessa leið húsnæðisstuðnings í nóvember 2014 og út maí síðastliðinn hafa á 163,5 milljarðar króna, á verðlagi hvers árs fyrir sig, ratað inn á höfuðstól lána þeirra sem hafa getað nýtt sér hann. Ef sú upphæð yrði uppreiknuð á fast verðlag fer hún langleiðina í að vera vel yfir 200 milljarðar króna.

Það er verið að nota skatta sem hefðu annars nýst til að bæta samfélag barna og barnabarna okkar til þess að lækka höfuðstól húsnæðislána

Sú fjárhæð kemur frá þremur aðilum: þeim einstaklingum sem velja að spara í séreign, atvinnurekendum þeirra sem ber samkvæmt lögum að greiða mótframlag sem er ígildi launahækkunar og svo frá ríkissjóði framtíðar. 

Þeir sem klappa fyrir þessari leið segja þetta hið besta mál. Heimilin eru að fá skattaafslátt til að greiða niður skuldir sínar. Sem er rétt, svo langt sem það nær. Engin tekju- eða eignarskerðingarmörk eru nefnilega fyrir því að fá þennan stuðning. Hann stendur öllum, ríkum og fátækum og þeim sem eru þar á milli, til boða. Fyrstu árin sem stuðningurinn var í boði var ekkert verið að greina hvar hann lenti, að minnsta kosti ekki þannig að sú greining væri birt opinberlega. 

Stuðningur við þá best settu

Í skýrslu starfshóps stjórnvalda um húsnæðisstuðning, sem birt var síðla árs 2022, var það hins vegar gert. Þar kom fram að 34 prósent þeirra sem nýta sér 2014-úrræðið tilheyra efstu tekjutíund landsins, 61 prósent tilheyra þeim fimmtungi landsmanna sem þéna mest og heil 80 prósent þremur efstu tekjutíundunum. Þessi húsnæðisstuðningur lendir því kýrskýrt hjá þeim sem eiga og þéna mest, enda eru þeir miklu líklegri en aðrir til að vera með séreignarsparnað yfir höfuð. Raunar er bein fylgni milli þess hversu mikið viðkomandi þénar og þess hvort hann safni í séreign (minni á að það er lögfest ígildi launahækkunar að gera það). 

Úr skýrslu stjórnvalda um húsnæðisstuðning sem kom út í desember 2022. Grafið sýnir hvernig 2014-úrræðið skiptist á tekjutíundir. Mynd: Stjórnarráðið

Alls 82 prósent þeirra sem tilheyra ríkustu tíu prósent landsmanna safna í séreign, rúmlega fjórðungur þeirra sem eru í fimmtu tekjutíund gerir það og einungis tvö prósent þeirra sem tilheyra tekjulægstu tíundinni.

Úr sömu skýrslu. Grafið sýnir hversu hátt hlutfall í hverri tekjutíund safnar í séreign. Mynd: Stjórnarráðið.

Þetta kann að virðast dálítið ruglingslegt allt saman þannig að ég ætla núna að reyna að taka þetta saman á einfaldan hátt og tengja við nýbirtar tölur. Í stuttu máli er 2014-úrræðið svokallaða húsnæðisstuðningur við best settu hópa landsins sem gagnast hinum verr settu lítið og í mörgum tilvikum ekkert. Á sama tíma og þessi stuðningur hefur verið stóraukin, og hann tekið við sem helsta húsnæðisstuðningsaðgerð stjórnvalda á síðastliðnum áratug, hefur annar stuðningur, sem gagnaðist lægri tekjuhópum, dregist verulega saman. 

Minnsti húsnæðisstuðningur í 20 ár

Þetta sýna hagtölur svart á hvítu. Samkvæmt samantekt sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) birti í síðustu viku eyddi íslenska ríkið 32 milljörðum króna í húsnæðisstuðning á árinu 2023. Það þýðir að 0,73 prósent af landsframleiðslu hafi farið í slíkan stuðning í fyrra. Um er að ræða bæði stuðning til eigenda og leigjenda.

Sem hlutfall af landsframleiðslu þá hefur húsnæðisstuðningur hins opinbera ekki verið minni en hann var á síðustu tvö ár á síðustu tveimur áratugum. Mynd: HMS

Á síðustu 20 árum hefur húsnæðisstuðningur við landsmenn einungis einu sinni verið minni en hann var á síðasta ári, og það var árið 2022 þegar hann fór í 0,64 prósent. Á tímabilinu öllu var hann að jafnaði 1,12 prósent, en þá eru meðtaldar miskabótagreiðslur undir hatti Leiðréttingarinnar, sem minnst var á hér að ofan. Það er ágætt að útskýra þær greiðslur stuttlega áður en haldið er áfram. 

Þar var um að ræða bætur úr ríkissjóði til þeirra sem voru með verðtryggð lán vegna verðbólguskots á árunum 2008 og 2009. Kostnaður vegna þessarar aðgerðar árunum 2014 til 2017, þegar Leiðréttingarpeningarnir voru greiddir úr ríkissjóði, er, samkvæmt HMS, samtals 97,3 milljarðar króna á verðlagi ársins 2023.

Rúmlega þriðji hver skattgreiðandi landsmaður átti rétt á Leiðréttingu. Sá helmingur þjóðarinnar sem átti mestar eignir fékk 72 prósent alls þess fjár sem greitt var út vegna aðgerðarinnar. Hinn helmingurinn fékk 28 prósent. Þegar skipting hennar milli tekjuhópa er skoðuð var niðurstaðan enn ójafnari. Alls fór 86 prósent af Leiðréttingunni til tekjuhærri helmings þjóðarinnar en 14 prósent til þess sem var tekjulægri. Þau tíu prósent Íslendinga sem var með hæstu launin á því tímabili sem greitt var út úr aðgerðinni fengu tæp 30 prósent alls þess fjár sem var ráðstafað úr henni.

Þáverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins, sem sat í ríkisstjórn með Framsóknarflokknum þegar Leiðréttingunni var ýtt úr vör, sagði við mig að aðgerðin væri „algjört rugl“. Brynjar Níelsson, þá þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði í viðtali við Kjarnann árið 2013 að hann teldi „mik­il­væg­ara að auka ráð­stöf­un­ar­tekjur allra en að fara í nið­ur­fell­ingu á skuldum sumra. [...]­Eignin mín hefur til dæmis hækkað þrefalt meira heldur en hún var þegar ég keypti 1999. Lánið hefur hækkað um ein­hverjar millj­ón­ir, en eignin hefur marg­fald­ast. Á ég síðan að fá nið­ur­greitt af þessum millj­ónum sem ég skulda úr sam­eig­in­legum sjóðum lands­manna? Fyrir mér er þetta auð­vitað galið.“

Samt var þetta keyrt í gegn. 

66 milljarðar á tíu árum

Hin hliðin á Leiðréttingunni var svo auðvitað 2014-úrræðið: skattfrjáls nýting á séreignarsparnaði til að greiða niður höfuðstól húsnæðislána. Samhliða var ákveðið að færa sig kerfisbundið úr vaxtabótakerfinu, þar sem um 80 prósent stuðnings skilaði sér til þeirra 70 prósent landsmanna sem höfðu lægstar tekjur. Í úttekt HMS sem minnst var á hér að ofan er kostnaður ríkissjóðs vegna þessa, sem stofnunin kallar glataðar skatttekjur, reiknaður sem 80,7 milljarðar króna. Það eru, samkvæmt HMS, glataðar skatttekjur vegna þessa úrræðis. Í útreikningum stofnunarinnar hafa allar útgreiðslur verið reiknaðar á föstu verðlagi og þar er horft til bæði 2014-úrræðisins og „Fyrstu fasteignar“, en um 82 prósent af öllum útgreiðslum sem átt hafa sér stað hafa farið í 2014-úrræðið, eða yfir 66 milljarðar króna.

Nú skulum við staldra við, taka þessar tölur saman og meta þetta aðeins. Rúmlega 66 milljarðar króna af því sem HMS kallar glataðar skatttekjur vegna skattaafsláttar þeirra sem nýta séreign til að greiða inn á höfuðstól húsnæðislána hafa farið í 2014-úrræðið síðastliðinn áratug. Alls 34 prósent þeirrar upphæðar fer til ríkustu tíu prósent landsmanna sem er með minnst íþyngjandi húsnæðiskostnað allra, samtals um 22,5 milljarðar króna, á sama tíma og 20 prósent upphæðarinnar, alls um 16,1 milljarðar króna, fór til þeirra 70 prósent þjóðarinnar sem er með lægstu tekjurnar og mest íþyngjandi húsnæðiskostnað.

Rúmlega 66 milljarðar króna af því sem HMS kallar glataðar skatttekjur vegna skattaafsláttar þeirra sem nýta séreign til að greiða inn á höfuðstól húsnæðislána hafa farið í 2014-úrræðið síðastliðinn áratug.

Í fyrra var sett með þegar 9,8 milljarðar króna voru gefnir eftir af tekjum ríkisins vegna beggja úrræða. Á sama tíma námu vaxtabætur – greiðslur úr kerfinu sem styður við lágtekjufólk og var skipt út fyrir húsnæðisstuðning fyrir betur setta, 2,8 milljörðum króna. Vaxtabætur voru 15 milljarðar króna árið 2003, 17,9 milljarðar króna árið 2009 og náðu hámarki með útgreiðslu sérstakra vaxtaniðurgreiðslna árið 2011 þegar þær fóru í 29,8 milljarða króna.

Gagnrýni að utan

Það liggur líka fyrir alþjóðleg staðfesting á því að þessir fjármunir hafi fyrst og síðast ratað til þeirra sem áttu mestar bjargir í íslensku samfélagi. Á fundum starfshóps innviðaráðuneytisins um húsnæðisstuðning með bæði Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS) og Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) í september 2022, kom fram að „rannsóknir sýna að aðgerðir til að styðja við húsnæðiskaup á borð við skattafrádrátt vegna vaxta á húsnæðislánum koma frekar þeim sem eru með háar tekjur og gott aðgengi að lánveitingum til góða“. Reynslan sýni að stuðningurinn sé ekki markviss og rannsóknir hafi sýnt að hann geti leit til „hærra húsnæðisverðs og minni almennrar hagkvæmni á húsnæðismarkaði.“

Það má því færa sterk rök fyrir því að þessi húsnæðisstuðningur fyrir betur setta sé að toga á móti þeim áformum stjórnvalda og Seðlabanka Íslands um að draga úr þenslu með svimandi háum stýrivöxtum og öðrum hamlandi aðgerðum. Íþyngjandi vaxtakostnaður lendir ekki á þeim sem eru að eyða mestu, hann lendir á þeim sem eru með minnst á milli handanna. Þeir finna mest fyrir verðbólgunni sem spratt upp úr allt of miklum vexti á örfáum árum, sem stjórnvöld ívilnuðu frekar en að hemja. Það liggur fyrir með skýrum hætti hverjir hafa grætt á þeim aðgerðum og hverjir hafa tapað. Um það fjallaði ég í greiningu á þriðjudag.

Er hægt að breyta kerfinu og halda áfram?

Það má vel skoða það að halda áfram með þá leið að heimila skattfrjálsa nýtingu á séreignarsparnaði inn á höfuðstól lána, eða til að safna upp fyrir útborgun í húsnæði. En það þarf þá að tryggja að leiðin nýtist líka þeim sem þurfa mest á því að halda og að sanngirni og réttmætis sé gætt, enda verið að tala um að gefa eftir skatttekjur barnanna okkar og barnabarna. Til þess að svo sé þarf augljóslega að setja inn einhverskonar eigna- eða tekjuskerðingarmörk í kerfið og tryggja að mun fleiri en bara tekjuhæstu hópar samfélagsins nýti sér það.

Ef viðkomandi vill alls ekki þessa launahækkun og þennan skattafslátt þá getur hann einfaldlega valið að fara út úr fyrirkomulaginu.

Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði og Már Wolfgang Mixa, dósent í viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, skrifuðu athyglisverða grein í Vísbendingu í síðasta mánuði þar sem þeir lögðu til eina slíka leið sem vert er að skoða af fullri alvöru. Þeir lögðu til að unnt yrði að gera greiðslu í séreign sjálfvirka þannig að launþegi þurfi að hafa fyrir því að hætta slíkum greiðslum í stað þess að þurfa að sækja um þær eins og nú er gert. Allir yrðu semsagt látnir greiða í séreignarsparnað, og fá þá launahækkunina sem felst í mótframlagi vinnuveitenda og skattafafsláttinn sem felst í nýtingu á sparnaðinum til að borga fyrir húsnæði. Ef viðkomandi vill alls ekki þessa launahækkun og þennan skattafslátt þá getur hann einfaldlega valið að fara út úr fyrirkomulaginu. Í stað þess að þurfa að skrá sig sérstaklega, myndi þurfa að afþakka. 

Fjöldi þeirra sem greiða í séreign myndi hækka verulega við þessa breytingu og þar með sparnaður einstaklinga. Það myndi aukalega líka hjálpa til við að lækka verðbólgu.

Gæti líka nýst sem hagstjórnartæki

Til viðbótar leggja þeir Gylfi og Már til að, í hagstjórnarskyni, megi fólki tímabundið nota viðbótar tvö prósent af séreign sinn, og greiða þá sex prósent í stað fjögur prósent að hámarki, til að standa straum af vaxtagreiðslum af húsnæðislánum til þess að það ráði betur við aukna vaxtabyrði, sem er að sliga marga um þessar mundir. „Unnt væri að setja þak á vaxtagreiðslur eins og nú er á greiðslu inn á höfuðstól sem hefði í för með sér að úrræðið nýttist einkum fólki með lægstu tekjurnar.“ 

Þessar breytingar myndu kalla á lagabreytingu en Gylfi og Már segja að úrræðið sem þeir mæla með gæti verið látið vara þangað til að vaxtastig fer aftur niður í eðlileg mörk. „Slíkt úrræði hefði mestu áhrifin á tekjulægsta hóp Íslendinga og drægi úr nauðsyn þess að fólk flytti sig úr óverðtryggðum lánum yfir í verðtryggð lán (bæði lánaform hafa sína kosti og galla). Rétt eins og með inngreiðslur inn á höfuðstól, þá væri eðlilegt að setja árlegt hámark á vaxtagreiðslur til að tryggja það að þau nýttust þeim sem mest þurfa á slíku skattahagræði að halda en ekki hálaunafólki umfram aðra.“

Við þurfum sanngjörn millifærslukerfi

Það er skiljanlegt að þeir sem hafa nýtt sér skattfrjálsa séreignarsparnaðarúrræðið á undanförnum áratug sjái eftir því verði það afnumið. Úrræðið hefur enda fært fólki sem hefur nýtt það allan tímann milljónir króna úr sameiginlegum sjóðum til að niðurgreiða húsnæðislánið þeirra. Það sem blasir hins vegar við þegar úrræðið er greint er að þetta er húsnæðisstuðningur fyrir best settu hluta þjóðarinnar. Þann hluta sem telur sig hafa haft svigrúm til að safna í séreign og nýta hana með þessum hætti.

Það er tilgangslaust að benda á að hinir hefðu bara átt að nýta sér leiðina, og tala um að það séu vonbrigði að þeir hafi ekki gert það. Hún hafi staðið þeim opin allan tímann. Raunveruleikinn er að þeir gerðu það ekki. Fyrir því geta verið margar ástæður. Sumir hafa ekki talið sig geta séð af þeim þúsundköllum sem rata í séreign á mánuði þrátt fyrir innbyggðu launahækkunina og skattaafsláttinn sem því fylgir. Aðrir hafa kannski ekki sett sig nægilega vel inn í úrræðið til að skilja hversu mikið fríðindi þeir sem nýta sér það fá umfram aðra. Svona er hægt að halda endalaust áfram. 

Þetta skrifa ég sem maður sem er á meðal þeirra sem hefur lengi sparað í séreign og getað nýtt mér kerfið. Það er því gegn mínum persónulegu fjárhagslegu hagsmunum að skrifa þessa greiningu. Mergurinn málsins er hins vegar sá að hér var skipt um húsnæðisstuðningskerfi á síðustu árum. Farið var úr vaxtabótakerfi sem nýtist fyrst og síðast lægri tekjuhópum og farið yfir í skattfrjálsa ráðstöfun séreignar, sem nýtist fyrst og síðast þeim sem eiga og þéna mest. Það er ekki sanngjarnt og eykur ójöfnuð hratt.

Stjórnmálamenn verða að hafa það í huga þegar þeir stíga næstu skref í þessum málum. Þeir verða að byggja upp réttlát kerfi með fyrirsjáanleika og eðlilegum tilfærslum. Þá þarf ekki lengur stanslaust að vera að leiðrétta fyrri hagstjórnarmistök með sértækum aðgerðum sem dulbúnar eru sem almennar.